þriðjudagur, 29. júlí 2008

Fuglafoss


Við Doddi erum komin heim eftir æðislega ferð til Fagelfors. Þar dvöldum við í miklu dekri í 6 daga, sem reyndar liðu alltof hratt hjá! Ég get svo svarið fyrir það að við rétt kíktum inn í kaffi þarna áður en við urðum að fara!

Ferðin gekk að mestu vel. Doddi var ótrúlega duglegur og kom mér á óvart hvað hann var rólegur í fluginu. EN þegar við lentum á Kastrup, byrjaði ballið! Taskan mín, sem by the way var full af mat og nammi handa Skoffíninu kom ekki! Samferðamaður minn lenti líka í þessu, og við biðum þarna tvö eftir töskunum leeeeeeengi. Ég var farin að fá hjartsláttartruflanir því ég sá að lestin færi að fara og ég myndi missa af henni. En samferðamaðurinn sá allt í einu sína tösku á þarnæsta færibandi og þar var mín líka! Algert smáatriði greinilega að fylgja því eftir að setja töskurnar á það færiband sem gefið er upp! En ég hljóp æst út og náði lestinni. Ég átti tvö sæti í lestinni og hlakkaði mikið til að hlamma mér niður og kasta mæðinni! En nei, það var ekki hægt. Lestarvörðurinn danski var í fýlu þennan dag, sennilega er hann alltaf í fýlu! Ég bað hann fallega á dönsku um að hjálpa mér og Dodda í sætin okkar, en Nej, det kan jeg ikke var svarið! Svo við sættum okkur við að staulast inn í farangursvagninn og þar sat Doddi í kerrunni sinni og ég á einhverju hörðu sæti! En skipti ekki miklu máli, þar sem við vorum á leiðinni til Birnu!!! Og þangað komumst við sem betur fer!

Hjá Birnu var ekki gert mikið annað en að keyra á milli bæja og versla,borða góðan mat og fara í göngutúra með Timmy og Sirrocco. Bara dekrað við okkur Dodda endalaust!

Svo kom heimferðadagurinn! Ég get nú ekki sagt að ég hafi verið búin að fá nóg af Fagelfors og þá aðallega Skoffíninu mínu sem býr þar. En í lestina fórum við aftur. Í þetta skiptið hjálpaði almennilegur Svíi mér og ég komst með allt mitt hafurtask í sætin sem ég átti. En því miður var loftræstingin í lestinni biluð og 38 stiga hiti úti eða svo! Fjúff..... ekkert smá heitt en þetta tókst. Á Kastrup mætti ég kófsveitt og sæt eftir því. Tékkaði okkur Dodda inn og þá var kerran hans´rifinn af mér! Ég varð ansi pirruð yfir því en alveg sama hvað ég sagði, kerruna mátti ég ekki fá aftur fyrr en í Keflavík! Svo fórum við í gegnum öryggishliðin og þar stóð ég að kafna úr hita, haldandi á 12 kg barni og þungum bakpoka og þá átti að láta mig tæma bakpokann! Ég sagði þeim bara að þeir gætu tæmt hann sjálfir, ég gæti ekki gert meira þennan daginn! Þeir létu mig í friði eftir það, eins gott að ég er ekki hryðjuverkamaður því ég komst í gegn. Við fundum sem betur fer kerru þegar inn var komið og ég varpaði öndinni léttar.
Svo fann ég Puslerum og þá varð gleði mín ekki minni, þangað til að ég komst inn í það! Þar voru tveir ungir karlmenn að klæða sig og sögðu mér vandræðalega að þeir væru að fara, hefðu bara þurft að skipta um föt!!!! Ekki það að í þetta herbegi fór ég ekki, það var alger viðbjóður! Tveir bilaðir vaskar, ekkert sæti, ekkert skiptiborð, einungis eldgamall pelahitari og neðri hlutinn af hraðsuðukatli, sem sagt æðisleg barna aðstaða! Við Doddi ákváðum því bara að rölta um Kastrup í 3 tíma.
Svo loksins var farið út í vél og farið af stað. Mér til skelfingar kom miðaldra maður og fór að troða handfarangrinum sínum þar sem við Doddi sátum. Hann horfði ansi grimmur á okkur og kannski engin furða, hann var í bol þar sem stóð stórum og skýrum stöfum... MAKE LOVE; NOT BABIES. Held að hann hafi látið færa sig, hann alla vega settist ekki hjá okkur og eitt sætið var autt. Doddi sofnaði í flugtakinu! Ótrúlegt barn! Svaf svo alla leiðina og vaknaði þegar ég var að troðast út.

Og getiði hvað, taskan mín og kerran biðu fallega eftir okkur á færibandinu þegar við komum niður í fríhöfnina..... NOOOOOOOT. Við biðum í alla vega 3 korter þá loksins kom draslið mitt og annarra á öðru færibandi.... hvað er málið???
Ekki það að mitt dót var þó alla vega ennþá í töskunni, ein kona sem var þarna fékk sína tösku galopna og alls kyns skemmtilegt dót var út um allt færiband!

En skemmtileg ferð, og núna er bara að drífa sig af stað aftur, fljótlega! Set inn nokkrar myndir og þær ættu að skýra sig sjálfar.

Engin ummæli: